Monday, August 9, 2010

Mashhad.

Mashhad.
Mashhad er önnur stæsta borg Íran og sú allra heilagasta, Á eftir Mekka er Mashhad mest sótt af pílagrímum múslima. Borgin telur 3 miljónir íbúa, en 20 miljónir pílagríma sækja hana heim á ári hverju.
Áttundi Imaminn, Imam Reza ,var myrtur hér og þar af heilagleikinn. Aðalaðdráttarafl borgarinna er Haram-E-Razavi helgisetrið og er það að mörgu leiti merkilegur staður. Fyrir trúarbyltingu stóðu saman þrjár moskur með tilheyrandi í hálfgerðri niðurníðslu, en eftir að Khomeni og kónar hans komust til valda hefur verið stöðug uppbygging og miklar endurbætur verið gerðar á þeim byggingum sem enn stóðu.
Helgisetrið er gríðarstórt og telur yfir 70 hektara. 10 moskur, glæsilega skreyttar af íslömskum og írönskum sið standa saman á þessu svæði með tilheyrandi þjónustu. Skólar, söfn (þar mátti m.a. finna fyrstadagsfrímerki af forsetum Íslands í myntsafninu), matstofur, lessalir, teppageymslur ,hreinlætisaðstaða, eldhús, hvíldarsalir svo fátt eitt sé nefnt til.
Endurbygging og nýbyggingar allar gerðar í sama íslamska stíl, fegurð og aftur fegurð. Það sem okkur fannst einkenna lífið í þessum moskum var fjölbreytnin og hversu innilega afslappað lífið var þarna.Konur biðja við hlið karlmanna, ekki fyrir aftan, konur og karlar sátu saman í hvíldarsölum, konur með smábörn í hóp, táningar hengsluðust eins og þeirra er von, börn hlupu um og ærsluðust, sumir sváfu aðrir lásu allt í friði og spekt. Ég trúavillingstúristinn þurfti auðvitað að bera chador innan veggja helgidómsins og get fullyrt að það er óþolandi heitt og flækir fyrir öllum hreyfingum, en ég er auðvitað ekki vön.
Grænn er litur íslam og eru öll gólf sett ljósgrænum marmara, gosbrunnar grænir, borðdúkar og servíettur í grænum tónum, þetta var allt mjög þægilegt, litur skurðstofunnar er líka grænn um heim allan.
Fyrstu kynni okkar af heimamönnum einkenndust af hispursleysi og glaðværð. Hvar sem við komum stoppaði fólk, spurði hvaðan við værum, brosti og óskaði okkur ánægjulegs ferðalags um Íran. Hinir svörtu chadorar setja sterkan svip á görumyndina, en þær konur sem þá bera eru alls ófeimnar við að heilsa brosa, taka mann tali og það er auðvitað óþarfi að taka fram að strákarnir nutu hylli svartklæddra íranskra stúlkna, en menn ávörpuðu mig óhræddir og konur Rút.
Að kvöldi dags brugðum við okkur í dýragarðinn, það þykir okkur gaman. Þar var fullt af fólki, 15 tígrisdýr sem urruðu hátt, 10 löt ljón og þar við hliðina á slatti af Pekinghundum, það þótti okkur kostulegt. Það hljóp þó á snærið hjá heimamönnum, því ný tegund var mætt til sýnis...hin fjögur fræknu, hvítklædd og sumir með hatt.
Kossar frá Íran á sjálfum Bastilludeginum.

No comments:

Post a Comment

 
Free counter and web stats