Við komum inn til Alma Ati gegnum frekar eyðilegt landslag, flatt og sendið. Alma Ati er hinsvegar hvorki flöt né sendin. Borgin er öll á brattan og skipulögð eins og Nýja Jórvík. Breiðgöturnar Lenin, Karl Marxs, Furmanov, Kommunistchesky og Seyfullin, sem nú hafa allar fengið ný Kasösk nöfn skera borgina frá norðri til suðurs, smærri spámenn fá nöfn sín á þvergöturnar.
Borgarstæðið er gríðar fallegt, til suðurs standa snæviþakin Zailiynski Alatau fjöll og til norðurs hinar frægu endalausu steppur Kazakstan. Borgin ber minjar 200 ára setu Rússa, fallegar pastellitar 19. aldar byggingar setja svip sinn á borgina. Sannarlega eru Sovésk áhrif sjáanleg, en þó ekki í þeim mæli sem ég hélt. Borgin er evrópskari en ég átti von á, fólkið fallegt, hefur ekki sérstakan mogólskan svip enda blandað slövum til 300 ára, klæðaburður evrópskur og sérstaklega hjálpsamt og elskulegt.
Hótelið sem við bjuggum á var svo sem hvorki fugl né fiskur, en hreint. Plúsinn var að svalirnar snéru í suður svo morgun sýnin var í fjarska hin fögru fjöll og í nærmynd, beint fyrir neðan hótelið hinn frægi Zelyony Bazar. Það er stærsti matarmarkaður borgarinnar og hann vaknar til lífs klukkan0700 og lokar klukkan 1900.
Við gengum borgina þvera og endilanga og tókum kláfferju upp á Kök Töbe, eða grænuhæðir til að njóta útsýnis og borða. Við stoppuðum ekki nena einn dag svo við undum okkur engrar hvíldar en stoppuðum þó til að leyfa strákunum að komast á internet. Kasakkar eru ekki kúgaðri en svo að internet er auðfengið og wi fi kaffihús á hverju horni. Það er kanske ekki lýðræði í þeim skilningi og við viljum endilega hafa og spilling, segja bækurnar, er gríðarleg.
Við keyptum okkur svo pylsur,ost,graslauk,svart brauð og kirsuber og þá var okkur ekkert að vanbúnaði að halda ferðinni áfram til Uzbekistan. Hinar gríðarvíðu steppur Kazakstan eru fallegar, hjarðir sauðfjár og geita á beit undir eftirliti fjárhirða, hestastóðin voru hinsvegar ekki undir eftirliti eins né neins nema skaparans og var það fögur sjón að sjá stóðin hlaupa um slétturnar í kvöldsólinni.
Leggurinn Kazakstan-Uzbekistan var hinsvegar hvorki einfaldur né átakalaus. Á lestarstöðinni tók á móti okkur maður sem ók okkur að landamærunum. Við létum hann fá umslag með peningum frá ferðaskrifstofunni til að greiða fyrir á landamærunum. Hann talaði stöðugt í síma á leiðinni og greinilegt að það var verið að skipuleggja hverjum ætti að múta. Við áttum tiltölulega greiða leið út úr Kazakstan en það er ekki alltaf til bóta að hafa diplómatískan passa....og þó.
Svo tók við troðningur og þvaga af gulltenntu fólki og ekkert gerðist í 30 mínútur og við skildum hvorki upp né niður í en svo voru hliðin opnuð og fólkið streymdi í næstu þvögu. Okkur var ekki sérlega skemmt við tilhugsunina um að þurfa að standa í þvögu í 45°c og sól og undum okkur að karli með hatt og veifuðum pössunum. Eftir það hrökk vélin í gang og greinilegt að mútuféð kom að góðum notum fyrir okkur, engin þvaga, engar biðraðir, ekkert vesen. Uzbeskir embættismenn eru skv. bókum þeir allra spilltustu í Mið Asíu.
Á móti okkur tók hinn geðþekki Airat, hans hlutverk var að koma okkur á brautarstöðina í Taskent. Hann ók okkur strax heim til sín svo við gætum komist á klósett og þvegið okkur, bar í okkur te og melónur, brauð og sultu og var hinn almennilegasti. Svo var haldið til Taskent. Á brautarstöðinni fengum við okkur plov og komum okkur fyrir í vip salnum( meðan við biðum eftir agent frá ferðaskrifstofunni sem átti að færa okkur lestarmiða til Samarkand. Strákarnir sofnuðu báðir í hægindastólunum meðan við, hin ábyrgu, settum tölvur og síma í hleðslu og gengum frá viðskiptum.
Í ljós kom að lestin átti ekki að fara fyrr en um kvöldið svo við höfðum nokkra klukkutíma til að skoða Taskent. Það hafði ekki verið á planinu svo við vorum óundirbúin en skelltum töskunum í geymslu, vöktum strákana og stukkum í metróinn beint á Chorsu basarinn. Ef það er ætt og vex í Uzbekistan, þá er það á þessum markaði. Stæður af litríkum kryddum, korni,mjólkurafurðum,brauði, grænmeti, ávöxtum kjöti og sætindum fylla þennan litríka basar og gulltenntar kerlingar með skuplur og karlar með chapan hattinn svarta brosa og hlæja, spyrja hvaðan við komum skella svo uppur og segja Reykjavík og Eyjafjallajökull. Við undum okkur lengi þar en tíminn var naumur og næsta stopp var Safn Amir Timors. Eftir að hafa fengið leiðbeiningar heimamanna tókum við strætisvagn í miðbæinn og nutum vel svalans í safni um föður allra Uzbeka og kóng yfir þriðja stæsta veldi heims. Fyrstur var Alexander, þá kom Gengis Kahn með sína landvinninga og svo Tímor hvers veldi náði frá Egyptalandi til Indlands.
Taskent er falleg borg ( það sem maður nær að sjá á nokkrum klst) en nokkuð ecclastisk. Stórt nýtt torg með glæsibyggingum og stórum glæsikerrum sker sig sárlega frá lágreistum húsum og hestakerrum gamla hverfisins. Almenningssamgongur godar og hreinar.
Við komum svo til Samarkand um miðnætti og vorum sótt og skutlað á hótelið sem var fallegt og notalegt lítið hótel í hjarta borgarinnar. Við vorum ein og nutum því 100% athyggli starfsfólksins sem hljóp í kringum okkur brosandi og lágmælt. Dagarnir liðu í stífu prógrammi því margt er að skoða í þessu skríni silkileiðarinnar, sagan á hverju horni , Ulugbek medrassan, stjörnufræði, stærðfræði og heimspeki , minnisvarðar miðalda svo stórkostlegir að ég læt skáldum eftir lýsingarnar,
„ We travel not for trafficking alone,
By hotter winds our fiery hearts are fanned,
For lust of knowing what should not be known
We take the Golden Road to Samarkand.“
J.E. Flecker.
Á kvöldin sátum við undir stjörnuhimni og spiluðum actionary, erum öll orðin frekar flink í líkamlegri tjáningu, mikið hlegið og gaman að vera til.
Eftir þrjá daga í Samarkand var tími til kominn að halda áfram til Buchara sem er heilagasta borg Mið Asíu, þar hefur verið samfelld byggð í 1000 ár og gamli hlutinn minnir svolítið á Damaskus, hálfdrukkin og dulítið úr sér gengin leirhúsin setja svip sinn á borgina, hún er skínandi hrein og ber þennan brúna eyðimerkurlit miðausturlanda. En þegar komið er innfyrir hurðina þá brestur á með litadýrð, gosbrunnum og austrænni fegurð.
Við fengum leiðsögumann sem var talsvert höll undir Uzbekistan, allt sem einhvers virði var reyndist þegar grannt var skoðað af Uzbeskum rótum runnið.
Uzbeskar konur ganga í síðum skyrtum og buxum í stíl, mér sýndust þær talsvert á þverveginn og áberandi gulltenntar en glaðlyndar og kurteisar. Og nú var komið að drama ferðarinnar, fótbolta.
Við höfðum altså fundið á interneti hvenær fótboltaleikur í undanúrslitum færi fram, vorum búin að borða, kaupa bjór og hnetur, sest niður til að horfa á leikinn, búið að skipta í lið og allt tilbúið. Allt fór vel i fyrstu en þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður fór rafmagnið af hótelinu!
Starfsfólk kom hlaupandi með kerti og sagði að trúlegast kæmi rafmagn á aftur innan skamms. Við settumst út og nutum stjörnuhiminsins. Fljótlega brast þó þolinmæði karldýranna og þeir færðu sig yfir á stórt hótel sem var upplýst eins og jólatré, ég varð eftir og hlustaði á Cohen. Rafmagnið var ekki komið þegar við fórum á hádegi næsta dags.
Tími til kominn að halda áfram eftir tveggja daga stopp og okkur ekið að landamærunum að Turkmenistan. Ekkert vandamál, við þutum í gegnum þrjú kontról eins og ekkert væri Uzbeka megin og svo tók við kílómeters ganga með farangur í brennandi eyðimerkursólinni, það var svolítið erfitt. Turkmenar tóku okkur vel, allt hreint og fínt, einstaklega hjálpsamir og brosandi landamæraverðir sögði einum rómi,“ velkomin til Turkmenistan“. Lestarferðin til Ashgabad gekk snuðrulaust, þangað komin beið okkar Mergen, ungur Turkmeni sem er okkar kontaktur hér en verandi á transit vísa þurfum við ekki að hafa leiðsögumann.
Kveðja frá Ashgabad
Tóta
Monday, August 9, 2010
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment