Kæru vinir og frændur, hér kemur enn einn langhundurinn og nú frá Ashgabat.
Ashgabad er hnallþóra af stærri gerðinni. Borg Turkmenbasa er yfirfull af ofskreyttum hvítum marmara höllum, gullstyttum, lampaprýddum breiðgötum og öðrum mónumentum tileinkuðum afrekum hans og heimspeki.
En viti menn, hvergi er gert ráð fyrir fólki innan um þessar hallir og þessi gríðarmiklu torg, hvorki kaffihús né veitingahús, hvorki almennings salerni né verslanir, það er ekkert nema tertuhallir.
Við höfðum ákveðið að fara í sirkus eitthvert kvöldið því splunku nýr stór sirkus er við hliðina á hótelinu. Sirkusinn var lokaður og enginn gat sagt okkur hvort né hvenær hann yrði opnaður. Ung stúlka sem sat í hliðarherbergi í kjallara upplýsti okkur um að það yrðu örugglega tónleikar á afmæli forsetans....en hann á afmæli í júni, á næsta ári altså!
Það var nú í lagi því við höfðum merkt við tvö söfn sem við höfðum hug á að skoða, minningasafn um jarðskjálftann 1948 sem lagði borgina í rúst og drap tvo þriðju borgarbúa og teppasafnið, en handunnin teppi héðan eru gersemar. Bæði söfnin voru lokuð og enn gat enginn sagt okkur hvort eða hvenær þau yrðu opnuð.
Sigurboginn, sem er aðalminnismerki borgarinnar og á hverjum trónir hin fræga gullstytta sem snýst þannig að sólin skín alltaf framan í leiðtogann var auðvitað lokaður. Miðborgarhnallþórurnar voru allar girtar af með 4 metra háum stálflekum.
Eldri hluti borgarinnar er lágreistur og frekar kósy, en dagar gamalla hverfa eru löngu taldir enda henta lítil pastellit hús ekki þeim marmarasóða sem hér ræður ríkjum. Hreinir strætisvagnar aka eftir helstu breiðgötum eftir öxlinum og karlar sitja aftaní konur fyrir framan. Ungir standa upp fyrir eldri meðborgurum, strætó er ókeypis. Borgin er tandur hrein, götusóparar útum allt og hvergi rusl né veggjakrot, nóg af ruslafötum.
Túrkmenar eru ólíkir frændum sínum Úzbekum, þeir eru mun líkari Evrópubúum í útliti þótt sannarlega megi sjá mongólsk augu og andlitsbyggingu innanum. Konur klæðast skósíðum munstruðum kjól og bera klút á höfði, karlar eins og Úzbekar og Kazakkar snyrtilegir í skyrtu og buxum, allt pressað og fínt. Rússnesku kunnáttu Túrkmena er hinsvegar ábótavant og oftar en ekki tala menn bara turkmensku. Bílafloti í takt við terturnar, alltof stórir og fyrirferðamiklir af öllum þjóðernum.
Fáa sáu við á ferli fyrsta daginn en það tíðkast etv ekki að fólk sé að spássera sér til skemmtunar í 50°c.
Næsti dagur í Ashgabad: Morgunverður af klassískri gerð, internet hótelsins lamað, eins og lyfturnar og sánað, en okkur bent á internet handan við hornið, ljómandi tenging án sérþarfa eins og feisbókarinnar og bloggs. Þaðan fórum við að leita að Jóhönnu Kristjóns, en við vissum að hún var í bænum. Hún hafði sloppið út af hótelinu sínu áður en við komum svo við skutluðumst í bankann til að taka út pening...en urðum frá að snúa vegna þess að passarnir voru á hótelinu og visakort með mynd gildir ekki. Þaðan ókum við að kláf ferjunni sem átti skv. bókinni Lonely Planet, að bera okkur upp 1265m til að fá útsýni yfir borgina og borða hádegismat.
Kláfurinn var hinsvegar ekki starfandi frekar en svo óskaplega margt í þessari hnallþóruborg. Á heimleiðinni ókum við framhjá 35 marmara háhýsum sem virtust tóm og hinu 100.000m2 bókasafni sem skv. prívat heimildum stendur tómt en innlendar heimildir segja að sé stæsta bókasafn heims og eigi flestar bækur, sennilega margar eftir hinn skínandi leiðtoga.
Við rússneska bazarinn hittum við Jóhönnu sem var að koma úr skoðunarferð um borgina með leiðsögumanni, við fórum á 5 stjörnu hótelið hennar sem er eins og okkar hótel, tjah frekar lokað.Við settumst á sundlaugarbarminn og ætluðum að panta okkur drykk, en barinn var lokaður! Þar sátum við og skiptumst á lífsreynslusögum, hlógum hátt og reyktum sígarettur frá Pyongyang.
Rútur yngri fór hinsvegar að sýna merki ógleði og fór heim , Grímúlfur fór aðeins seinna en við fórum í útréttingar. þegar við komum svo á hótelið okkar klukkutíma seinna hafði Grímúlfur verið í hjúkrunarhlutverki að reyna að kæla bróður sinn með öllum tiltækum ráðum, köldum handklæðum, loftkælingu og ís. Hann var við mælingu með 41,3 svo ég ákvað að hringja á lækni......heimamenn vita meira um svona sólstingi en ég. Í móttökunni var mér sagt að læknastofan væri lokuð!!!!!! og óvíst hvenær/ hvort læknir kæmi!!!!!!, svo ég urraði og hvæsti um þjónustu og fimm stjörnu hótel, æsti mig í fyrsta skipti í ferðinni.
Það kom skömmu seinna kona í sjúkrabíl, í hvítum slopp með hatt eins og Beina Bjarni á Landakoti í denn, hún fékk sjúkrasögu í genum túlk og gaf stráknum sprautu og sagði“ ekki sól, ekki út, sól voða hættuleg, þið alltaf úti að ganga, starfsfólk hótels segir að þið gangið og gangið, ekki gott, of heitt“
Við ákváðum því að borða á litlum restó sem skv. bókinni á að vera frambærilegur og er hér við hliðina á hótelinu, viti menn hann var lokaður og hafði verið lengi. Við fundum rússneska stalovaju í næstu götu og fengum okkur shaslikk með lauk og túrkmennskan bjór sem er ljómandi góður.
Ekki sjást leigubílar á götum borgarinnar en auðvelt er að veifa bíl og verðið sanngjarnt, 1-2 dollarar fyrir skutlið, það er ekki of dýrt ( þótt ferðirnar séu oftar en ekki að lokuðum dyrum) og hreinn gróði fyrir heimamenn því hér kostar bensínlítrinn 20 cent.
Síðasti dagur í Ashgabad. Snemma á fætur þrátt fyrir fótboltasjónvarpsgláp langt fram á nótt. Fyrsti áfangastaður átti að vera dýragarður Ashgabad og okkur til lítillar undrunar komum við enn að lokuðum dyrum.
Nú gæti einhver spurt“ er ekki hægt að spyrja í móttökunni hvort sé opið eður ei“ og svarið við því er nei. Það er að sönnu hægt að spyrja en það veit enginn neitt, „getur þú þá hringt fyrir mig“? „Nei ég veit ekki númerið og veit ekki hvernig ber að nálgast það“!!!
Hvað með það, við húkkuðum okkur bíl, skínandi fína Volgu og karl sem talaði reiprennandi rússnesku og fengum hann til að aka með okkur út í eyðimörkina til að skoða Tolkuchka Bazarinn.
Hann er staddur út í Karakum eyðimörkinni 10 km suður af borginni og þar úir og grúir af allskonar vöru, allt frá loðhöttum í sýrða mjólkurdrykki. Kameldýr og geitur, teppasalar og skartgripasalar, Ashgabatar á öllum aldri, ekki sást túristi nema hin fjögur fræknu. Svo heim á hótel í hvíld, enda enn 50°c í forsælu og við að passa okkur.
Þaðan var haldið gangandi eftir ólæsu korti að glápa á stríðsmónument. Það kom berlega í ljós í móttökunni að, a) enginn kunni að lesa á kort, b) enginn vissi hvar mónumentið var staðsett. Við hafandi verið í borginni í fjóra daga þóttumst geta séð að það var í hjarta borgarinnar svo við lögðum af stað í þriggja klukkutíma göngutúr, skoðuðum minnismerkið sem var gríðar fagurt, umvafið gosbrunnum og trjágróðri, þaðan köstuðum við svo kveðju á hinn hringsnúandi leiðtoga áður en við tókum stefnu á kvöldverð, að þessu sinni á dæner uppá amrísku, sem reyndist opinn og bar fram nær óæta hamborgara, en bara svona uppá skemmtunina þótti hann vera við hæfi.
Allt er dýrt í Turkmenistan, 5$ fyrir innanbæjarsímtal, 8$ fyrir að þvo einar buxur og strauja ( hingað til hefur kg.af hvítum þvotti verið milli 1-2 $).
Ég svoði bara sjálf í baðkarinu það er nú ekki mikið mál fyrir röska konu.
En nú er komið að lokum þessa –stan kafla ferðarinnar. Á morgun förum við yfir Bagdjiran landamærin inn til Iran. Turkmenistan er það land hér sem ég skil síst í. Auðvitað er ekki tekið með silkihönskum á uppreisnarseggjum en þjóð sem horfir á infrastrúktur samfélagsins blæða meðan gullstyttur og rjómatertur spretta eins og gorkúlur út um allt, án þess að rísa upp er mér óskiljanleg.. Hér var öllum sjúkrahúsum og bókasöfnum á landsbyggðinni lokað þvi leiðtoginn var kominn í fjárþurrð, hér virkar einhvernvegin ekkert og fólki virðist vera nokk sama, áhugaleysi, þekkingarleysi,skortur á forvitni um umhverfi sitt og skortur á þjónustulund virðist mér alltumlykjandi. Ég á trúlega ekki eftir að koma hingað aftur frekar en til N-Kóreu.
Bestu kveðjur,
Tóta, blessunarlega komin til Iran
Monday, August 9, 2010
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment