Yazd.
Eftir nótt í flottustu lest sem ég hef ekið með komum við til Yazd, sem er skv. sögn heimamanna sú borg í heimi hér sem hefur hve lengsta sögu, samliggjandi. Íbúar Aleppo og Damaskus hafa svipaða sögu að segja og mér er slétt sama hvaða borg er elst, Yazd er arfagömul.
Við vorum sótt á brautarstöðina og ekið inn í hjarta gömlu borgarinnar og sett af á pínulitlu, fallegu og sjarmerandi ( nýuppgerðu) hóteli í hjarta gamla bæjarins. Svo hófst hinn hefðbundni rúntur á milli moska og mónumenta, bazara og safna.
Þegar hér var komið í ferðinni höfðum við lært okkar lexíu og höguðum okkur eins og heimamenn, notuðum svala morgunsins og lögðum okkur milli 3-7 og tókum svo seinni hluta dags eftir sólsetur. Heimamenn borða aðalmáltíð sína um kl 1400, leggjast svo á meltuna og fara aftur af stað þegar tekur ögn að kólna. Kvöldverður er óverulegur, te og melóna, etv. bakki af ávöxtum.
Gamli bærinn er völundarhús af misyfirbyggðum einna hæða bazar-göngum, þökin eru kúpt til að fanga hitann og losa út um gat í miðri hvelfingunni, að ofan líta þessi þök út eins og röð af fallegum brjóstum. Liturinn er ljósbrúnn, hlaðnir veggir þaktir stráblönduðum leir sem hentar veðurfarinu því hann „andar“.
Yazd er úti í miðri eyðimörkinni og furðar maður sig á því að nokkrum heilvita manni skuli hafa dottið í hug að á þar. Eðlilegasta skýringin er auðvitað sú að þar hafi verið vin og úlfaldalestirnar stoppað á leið sinni austur/ vestur. Marko Pólo segir borgina hafa verið „a fine and splendid city and a centre of commerce“ Genghis Kahn og Timor áttu leið þarna um án þess að leggja hana í rúst og Yazd blómstraði á 14-15 öld. Silki, vefnaður og teppi voru framlag heimamanna.
Svo þegar fólki fór að fjölga og þörfin fyrir vatn jókst þá tóku menn sig til og fóru að leita að brunnum og fundu. 100 metra ofan í jörðinni fannst þetta fína uppsprettuvatn og tóku menn sig þá til og grófu áveitur í öll hús, óþrifaleg og erfið vinna en ábótasöm þar sem hvert hús fékk vatn til afnota og ekki síst til kælingar. Flest hús, eins og víðar á þessu svæði, hafa amk eina hæð undir yfirborði jarðar, stundum tvær og flytur fjölskyldan niður yfir heitasta tímann, loftræsting og kæling eru ótrúlega áhrifarík og setja kæliturnarnir ( turnar byggðir þannig að minsti andvari er fangaður og beint niður í dýpsta kjallara um leið og heitu lofti er beint upp og út) mikinn svip á gamla bæinn.
Shiraz.
Shiraz er stórborg og háskólaborg. Hún er 2000 ára gömul átti sín gullaldarár á 13.-14. öld og þekkt fyrir rómantík, skáld og vín. Hér er Hafez grafinn og sitja heimamenn í hinum rósum prydda garði sem umlykur gröfina á kvöldin og lesa ljóð hans fyrir hvorn annan. Við keyptum okkur ljóðabók og lásum líka og sannarlega skilur maður hrifningu heimamanna á þessum rómantíska bóhem. Í borginni er svosem ekkert sérstakt, fyrir utan mannlífið, sem fangar mann. Aðal aðdráttaraflið er auðvitað Persepolis, sem mig hefur dreymt um að sjá síðan í bernsku þegar ég skoðaði myndir í bókinni „Heimurinn okkar“. Við leigðum okkur leiðsögumann og bíl og eyddum einum degi í að skoða þessa dásemdog að pumpa leiðsögumanninn um daglegt líf í Íran. Persepolis er ógleymanleg og frásagnir leiðsögumannsins eftirminnilegar og fræðandi. Hún lá ekkert á skoðunum sínum á stjórnvöldum, sagði þau blind af trúarofstæki og þröngsyni, sagði ekki nema 15% þjóðarinnar styðja forsetann, en það væri þó stór hópur Írana sem styddi stjórnvöld í baráttu sinni fyrir sjálfstæðri stefnu í innanlandsmálum.
Sem fyrr voru heimamenn hinir elskulegustu, forvitnir og spurulir og fyrr en varði var búið að bjóða strákunum í partý þar sem bæði rokk, ról og vodki var borinn fram, stjórnvöldum bölvað og framtíðardraumar ræddir eins og vera ber. Við Rútur fórum á bíó, sáum gamanmynd sem var auðvitað á Farsí EN húmor er alþjóðlegur og höfðum við mikla skemmtun af og hlóum hátt.
Esfahan.
Esfahan er demantur hinnar gömlu Persíu og ein fallegasta borg hins íslamska heims. Þar eru samankomin byggingarlistaverk sem eiga sér engan líka í víðri veröld. Þar eru 1000 ára kúpólur sem sagðar eru dæmi um hina fullkomnu stærðfræði, kúpólur sem staðið hafa af sér fjölda jarðskjálfta en ekki haggast, þar eru kúpólur sem bergmála sjö sinnum hið minsta hljóð, þar eru einnig kúpólur sem eru þannig hannaðar að ef hvíslað er í einu horni þá berst hvíslið upp og eftir loftinu, niður i gagnstætt horn og skilar sér með sama styrk, þar er hægt að tala lágt frá ákveðnum punkti og hljóðið berst í óbreyttum styrk á þar til gerðan punkt 50 m fjær. Þar verður maður agndofa og orðlaus af virðingu fyrir byggingarfræðingum, stærðfræðingum, eðlisfræðingum að ógleymdum listamönnunum sem teiknuðu, máluðu,brenndu og skáru hina turkisbláu mósaík.
Verandi enn og aftur á litlu original hóteli í miðjum bazarnum hófum við för okkar alltaf á því að þræða krákustígana og horfa á kaupmennina setja upp stalla sína, við þóttumst nú hafa séð þetta allt áður þegar við duttum inn á Imam Torgið. Það er gríðar stórt, u.þ.b. 4 Laugardalsvellir, umkringt bogadregnum tveggjahæða göngum. Þrjár gullfallegar moskur standa við torgið og ein höll.
Torginu er skipt niður í grasreiti sem eru stúkaðir af með göngustígum og gosbrunnum. Á kvöldin safnast heimamenn saman þarna, leika sér, kjafta, drekka té, sýna sig og sjá aðra. Við fundum tehús uppi á þaki við enda torgsins og höfðum frábært útsyni. Rútur pantaði te og nargile. Þjónninn vildi endilega setja pípuna á gólfið og þegar hann var spurður af hverju við gætum ekki haft hana á borðinu eins og aðrir stóð ekki á svarinu: Þið hafið með ykkur konu, svo dró hann fingur yfir hálsinn og ranghvolfdi í sér augunum. Konur reykja ekki opinberlega í Esfahan.
Skítt með það, ekki truflaði það mig, hitt þótti mér skrýtnara að ekki fundust nein spil á öllum markaðinum. Við höfðum, daginn áður tekið tali ungan teppasala sem var ljómandi mæltur á enska tungu og leituðum við hann uppi til að spyrja hverju sætti. Trúarlögreglan hafði þá viku áður tekið ÖLL spil úr umferð, sennilega verkfæri djöfulsins eins og í Evrópu miðalda.. En eins og sagan sýnir og sannar þá finna menn ráð við öllu og teppastrákur hringdi í vin sem átti vin, stökk á vespuna sína og kom lymskulegur með pakka af spilum í svörtum plastpoka og afhenti okkur gegn vægu gjaldi bak við luktar dyr. Ég hef ekki staðið í svona lymskuspili síðan ég keypti hass á táningsárum mínum í Reykjavík.
Bænakall er með fjölbreyttara móti, ein rödd eða tvær, stundum raddað og stundum kór djúpra radda og jafnvel bumbusláttur. Bænakall er þó fyrirferðarminna og sjaldgæfara en við eigum að venjast í löndum múslima.
Íranir eru ung þjóð, meðalaldur er 28 ár og eru börn bókstaflega út um allt. Þau eru greinilega hluti af pakanum því það er sama hvort við erum inni á söfnum, í moskum, görðum eða á veitingahúsum um miðnætti, allstaðar eru börnin með, alveg frá fæðingu. Þau eru vel upp alin og prúð svo þau eru alltaf til yndis.
Þegar við löbbuðum undir miðnætti heim eftir galtómum og harðlæstum bazarnum undir vökulum augum lögreglu komum við að mosku þar sem stóðu mikil hátíðarhöld, við stöldruðum við til að hlusta og vorum samstundis sjanghæuð inn, fengum köku og djús, ég send aftast til þeirra svartklæddu en strákarnir settust með karlmönnunum og þarna hlustuðum við á skemmtilegt samspil immamsins og safnaðar, Immaminn hrópaði svo hátt að ég hrökk við í hvert skipti sem hann hóf röddu sína og söfnuðurinn tók fagnandi á móti og söng viðlagið. Það var búið að skreyta allt með persneskum ( vélhnýttum að vísu) teppum og blómum, mislitum ljósum og glingri. Þegar við svo yfirgáfum fögnuðinn var okkur sagt að þetta væri minningarathöfn um fyrsta immamin Ali. Það er alltaf þakkarvert að fá að vera með heimamönnum á jafningjagrundvelli.
Kashan.
Fyrri degi í Kashan eyddum við í leti við spil og lestur í aldingarði hótelsins. Þegar okkur fór svo að svengja um kvöldið var lagt af stað eftir leiðbeiningum þvaðursins í „Lonely Planet“ . Skv. bókinni þá skartar Kashan einum fegursta og upprunalega persneska garði Íran. Það reyndist auðvitað bull eins og svo margt í þessari arfa vitlausu túristabók. Fin garðurinn var sannarlega með áveitum og honum skipt niður skv ströngustu reglum, En hann var pínulítill, skartaði engum blómum né runnum sem orð er á hafandi, tré öll harðgert barr og beð þur og skorpin. Ég hef séð fallegri garð á Akureyri, Iceland.
Hvað sem því líður þá stendur líka í þessari vitlausu bók að garðurinn sé umkringdur úrvals veitingahusum, en ef kofaskrífli með útskeifum dívönum, slitnum súmökkum og einu kolabretti er veitingahús þá er Bleik brugðið og honum var!
Hvað sem því líður þá ákváðum við að fá okkur te og nargile meðan við spyrðumst fyrir og flettum í bókum, en viti menn, ekkert nargile, trúarlögreglan hafði sumsé ákveðið að nargíle væri af hinu illa í Kashan og fjarlægt allar pípur, ég er nú orðin svolítið þreytt á þessari trúarlögreglu og vitleysisganginum í kringum hana. Þó verður að taka fram að lögregla er ekki áberandi hér nema aðeins á kvöldin, áreyti við útlendinga er óþekkt og öryggi með því besta sem gerist. Við fundum að lokum veitingahús með borði og stólum, loftkælingu og viftum, á matseðlinum var kjötsúpa. Eitt er víst að ekki borðar maður á sig spik hér enda heimamenn grannir og spengilegir langt fram eftir aldri.
Að lokum er rétt að taka fram að hér þarf maður ekki að standa í þrasi yfir verði á hlutum, enginn reynir að hafa af þér fé, leigubílar gefa til baka þegar of mikið er borgað,ekki er smurt á reikninginn á veitingarhúsum, eitt verð fyrir alla, betl sést ekki hvað þá fjandans backsheesh-ið.
Nú sitjum við á veröndinni og borðum morgunmat, te, brauð,hunang og ávexti. Á prógramminu er basarinn sem skv. Einmanajörð er einn sá stæsti í Íran.
Næsta stopp er hin heilaga Qom, þar þurfum við að berja augum helgidóm systur Imam Reza og svo er stefnan tekin á Tehran, höfuðborg ríkisins.
Má reykja þar?
Má spila á spil þar?
Er Belfigor jafn áberandi þar?
Er fólk jafn elskulegt í höfuðborginni og til sveita?
Er hægt að fá ætan mat þar?
Gengur ungt fólk öðruvísi til fara þar?
...........allt þetta kemur í ljós á næstu dögum, lokadögum ferðar hinna fjögurra fræknu um heim hinna kúguðu.
Tóta slæða...í nokkra daga í viðbót.
Monday, August 9, 2010
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment