Sunday, August 15, 2010

Síðasta stopp. Tehran.

Við ókum frá Kashan, hvar við höfðum átt tvo ánægjulega letidaga, og áleiðis til Tehran með viðkomu í hinni helgu borg Qom. Þar lærði Kohmeni sín trúarofstækisfræði en Qom hefur verið trúar og kennslusetur í margar aldir. Þar sá ég loks birtingarmynd trúarofstækisins sem ég hef leitað að um allt land. Konur svífa allar um í Belfigordressinu og ekki er þverfótað fyrir imömum með hvíta eða svarta túrbana eftir því hversu náin fjölskyldutengsl þeir hafa við spámanninn. Þegar við reyndum að komast inn í trúarkomplexið ( ég með chadorinn tilbúin til að mæta öllum kröfum) var okkur endalaust vísað á aðrar dyr. Þegar svo loks okkur var hleypt inn kom þar strax aðsvífandi ungur maður sem vildi einlægt greiða götu okkar. Fyrst þurfti að sækja um skriflegt leyfi fyrir aðgangi, þegar það var komið var farið með okkur í „ foreign relations skrifstofuna“ þar átti að upplýsa okkur um unaðssemdir múslimskunnar og þegar við bentum kurteislega á að viðværum túristar og engan vegin á leið í trúarskipti þá var okkur sagt að við yrðum að hypja okkur út, mættum þó taka myndir ef okkur hugnaðist. Æ svona „ holyer than thou“ kjaftæði fer í taugarnar á mér, eins og raunar allt fólk sem þykist yfir annað fólk hafið.
Óþarfi að fara aftur til Qom.
Leiðin til Tehran var greið, fín þriggja akreina hraðbraut, bílstjórinn ók sem óður væri en það sýnist mér vera lenska hér. Hótelið miðsvæðis, takmarkað internet og BBC í snjókomu. Tehran er ekki falleg borg við fyrstu sýn, Borgarstæðið er að sönnu fagurt við rætur hinna miklu fjalla þar sem Tehranbúar skíða á vetrum, en borgin er víðfem og erfitt að átta sig á henni á svona stuttum tíma. Hún er ekki heldur túrista/neysluvæn, erfitt er að finna kaffihús og veitingastaði og þvælist það aðeins fyrir okkur sem viljum skoða allt á fæti og þurfum því að geta sest niður til að brynna okkur yfir daginn.
Hafandi stuttan tíma og margt að skoða ákváðum við að leigja okkur bíl og bílstjóra auk leiðsögumanns, það var peninganna virði því mikill tími fer í að ná áttum þar sem kort af borginni liggja ekki á lausu og eru á farsí. Rútur yngri getur stautað sig framúr götuheitum því letrið er arabískt þótt tungan sé önnur.
Gimsteinasafnið:Í stuttu máli sáum við stærri og fleiri gimsteina, rúbína, smagraða,emeralda,tópasa,ópal og lapiz lazouli en nokkru sinni áður, og höfum þó séð frönsk, ensk og rússnesk krúnudjásn. Steinarnir voru svo margir og svo stórir að aðeins þeir sem voru hnefastórir fengu athygli, hinir sem láu í haug í vaskafötum víðsvegar um salina voru ekki virtir viðlits.
Þjóðminjasafnið: 5000 ára gömul mannréttindayfirlýsing Cyrusar, hvar hann fjallar um rétt þegna sinna til m.a.....trúfrelsis. Pottar og pönnur, leikföng og listir, vopn og verjur svona 5-6000 ára gamalt, gríðarflott safn enda sett upp af frökkum. Þar standa líka lágmyndir þær frá Persepolis og Necropólis sem ekki rötuðu í Brittish Museum. Bókhald hinnar miklu Persepolis, allt vandlega skrifað á 3000 töflur, er í safni í Chikagó.
Teppasafnið: þar var eðli hluta samkvæmt fjöldi teppa frá öllum hornum Iran, falleg og fín, það örlaði aðeins á græðgi hjá mér, mig langaði í þau ÖLL en í fyrsta lagi voru þau ekki til sölu og í öðru lagi á ég miklu meira en nóg og ekki síst þá er ég ekki viss um að budda ríkisstarfsmanna sé sniðin fyrir svona listaverk,svo en plus voru þau auðvitað ekki til sölu.
Að lokum ókum við upp í sumarhöll Mohamed Reza, Palavi yngri. Þar lét hann reisa sér mikla höll, teiknuð af írönskum arkítektum í amrískum stíl, en húsgögn voru Lois XVI, sevres postulín, kristallinn tékkneskur, Goblinar á veggjum og fyrir gluggum og sérhnýtt persnesk teppi í hverjum sal, 125 hnútar á radj( 7cm) en þéttara verður vart hnýtt. Stæsta teppið sem við sáum þar var 76m2 listaverk frá Mashhad.
Af lífsnautnum: Íranir virðast í fljótu bragði ekki vera mikið lífsnautnafólk. Sjaldan sér maður menn reykja, vatnspípur og þartilgerðar testofur eru sjaldgæf sjón, ekki er hangið lengi yfir ilminum af Burgundi eða litnum á Sancerre, reykilmur wiskís og sætleiki koníaks vefst ekki sérlega fyrir heimamönnum, ekki einu sinni froðuhaus bjórglasins fær athygli því hér er áfengisneysla bönnuð.Ekki gleður kvenpeningur borgarinnar auga gests og gangandi. Þær sem ekki eru sveipaðar hinum svarta chador eru klæddar í sauðalitar kápur, gallabuxur og Iðunarskó að skuplunni ógleymdri. Karlmenn eru myndarlegir og glæsilegir á velli en svosem ekki heldur klæddir eins og í París Ekki sökkva þeir sér i feitar steikur eða grillaða smáfugla, fyrir auga ferðamannsins ber fátt spennandi til átu. Grillað kjöt og bragðlitlar súpur eru það sem við höfum fundið, mikið er borðað af ósöltu þunnu flatbrauði.
Rútur hafði sent meil á ræðismann Íslands þegar við komum og hringdi hann um leið og hann kom til borgarinnar og vildi fyrir alla muni sýna okkur borgina, en þar sem við höfðum notað tímann vel þá varð úr að hann byði okkur út að borða. Hann mætti á lítilli rútu og fór með okkur til Alibaba sem gerir besta ís sem ég hef nokkru sinni smakkað enda 14 brögð þar samankomin, saffran, pichstasio, valhnetur, rósavatn svo nokkur séu nefnd. Þvínæst var haldið á gamlan hefðbundinn veitingastað.
Hann hafð kallað saman nokkra vini og var vel veitt af mat sem reyndist, okkur til mikillar ánægju, bragðmikill og fjölbreyttur, undir máltíð var leikin hefðbundin írönsk tónlist, söguljóð sungin, með mikilli tilfinningu við fögnuð gesta sem voru greinilega úr efri stéttum samfélagsins. Þetta var skemmtilegur og óvæntur endir á Tehran dvölinni og stigum við södd og sæl hlaðin gjöfum um borð í lestina um miðnætti.
Lestarferðin var þægileg, matur með ágætasta móti og fyrr en varði vorum við komin að landamærum Tyrklands.Þar tók við passaskoðun og almennt eftirlit, gekk þó frekar fljótt fyrir sig enda þurfa Íranir ekki vísa til Tyrklands.Helmingur samferðar kvenna kastaði skuplunni og hinum hefðbundna búningi, ekki varð ég þess vör að karlmönnum væri brugðið við það. Heldur hægði á ferð eftir að við höfðum farið yfir landamærin og biðu okkar mörg óútskýrð stopp. Mörgum klukkutímum seinna fórum við svo um borð í ferjuna Van (ekki the man) sem fleytti okkur yfir Van-vatn. Við höfðum hugsað okkur gott til glóðarinnar, ég var búin að panta g&t, Rútur Arak og ólífur og strákarnir froðufelldu við tilhugsunina um ískaldan bjór, en nú var Bleik heldur betur brugðið. Ekkert áfengi fékkst um borð, hreintrúarmenn ( sem eru nú í meirihluta í þinginu) höfðu lagt af allt slíkt daður við djöfulinn og kóladrykkir boðnir í staðinn. Þetta þótti okkur súrt en fleygðum okkur þess í stað bara í stóla, drógum upp bækur og sleiktum sárin. Sem ég skrifa þetta sit ég úti á þilfari og horfi á birtingu, Rútur og Grímúlfur sofa en Jr. Situr hér með mér og dáist að fegurð himinsins, enn dulítið pirraður út í svartklerka.Fyrir höndum eigum við bróðurpart Tyrklands en næsta stopp er hin fagra Istanbul við Bosporussund.
Af lestarferð í hinum „ frjálsa heimi“
Lestarferðin um hið mikla og víðfeðma Tyrkland var næstum þrautarganga. 12 tíma seinkun, endalaus óútskyrð stopp, enginn matarvagn, engin tungumálakunnátta. Þar sem hinn kúgaði heimur hafði staðið sig óaðfinnanlega í öllu sem viðkemur kemur lestum fengu Tyrkir lélega fallenkun.
Við komum til Istanbul rétt í tæka tíð til að ná fluginu til Parísar. Óþarft að taka það fram, en París er lang flottust.
Lýkur hér minni frásögn af ferð hinna fræknu um um hinn kúgaða heim.

No comments:

Post a Comment

 
Free counter and web stats