Jesús Guðs sonur hvað ég er glöð að vera farin frá Urumqi, höfuðborg Xinjiang héraðs. Héraðið ( á stærð við Ísland) er ein andskotans eyðimörk, einstaka niðurníddar borgir og þess á milli olíudælur í löngum bunum.
Í Urumqi er ekki ein einasta manneskja sem talar nokkuð annað tungumál en kínversku og þó, uyguriska er mál heimamanna og er túrkneskt að uppruna og skrifmálið er byggt á arabíska letrinu.
Leigubílstjórar, starfsfólk lestastöðva, móttökustjóri á fimm stjörnu hóteli , ekki kjaftur sem talar ensku,frönsku,þýsku né arabísku....ok ég fer ekki sérstaklega fram á þekkingu á skandinavískum tungumálum, það væri megalómania hálfvita í þessu stóra landi gulra.
Það sem ergir kanske einkum er það sem við myndum kalla dónaskap. Þetta fólk virðir mann ekki viðlits þótt það sé ávarpað, fyrst kurteislega og á endanum með hrópum og látum. Það talar ekki erlend tungumál og sér akkúrat enga ástæðu til að reyna að skilja. Hvernig Rúti tókst að næla í lestarmiða á lestarstöð þar sem enginn talar tungum, ekki er hægt að borga með korti né evrum, ekkert ATM og bank of China í öðrum borgarenda, honum tókst það nú samt með þrautsegju og því sitjum við nú hér í þessari fínu lest. Lestarvörðurinn sá strax að rétt væri að bjóða strákunum sér klefa svo við ferðumst nú betur en nokkru sinni á þessari yfirreið um hinar kúguðu þjóðir heims.
Urumqi er 2,5 miljón manna borg, greinileg uppbygging en enn glittir í blokkir gamalla tíma kommúnista sem hafa ekki séð málingarpensil í 60 ár. Frekar ófrÍtt og stórgert fólk, ótrúlega illa skóað,illa tennt og hryllilega hávært, nema ég sé að verða gömul. Borgin er sögð einstök að því leyti að hún er lengst allra borga frá sjó eða stöðuvatni. Þar borðar maður urumqiskar núðlur sem eru góðar og seðjandi, þó ekki blaðbrjótandi í kúlínerísku samhengi.
Lestin fór seint um kvöld og auðvitað ekki kjaftur sem gat sagt manni af hvaða brautarpalli hvað þá að upplýsingarskilti gæfu nokkuð til kynna. Þegar Rútur var um það bil að sleppa sér við fúllynda starfskonu járnbrautanna í vip herberginu þá steig fram budduleg kona og sagði „ sto vi hotit“? Ég varð svo glöð að heyra tungumál sem ég slkildi að það lá við að ég kyssti hana. Hún talaði kínversku og rússnesku og túlkaði af snilld. Ég var komin heim.
Í lestinni var okkur tekið vel og strax brast á hin blómlegasta rússneska, við hjónin pússuðum gamla þekkingu á tungunni og allt í einu gat ég brosað og hlegið aftur því ég var komin í mannleg samskipti,
Lestin í rússneskum stíl, dýnur, handklæði,þykk bómullarsængurföt og samóvar. Við skemmtum okkur við actíonary, lékum allt frá háhælaða dvergnum í N-Kóreu til fagurbókmennta frakka.
Á landamærunum við Kazakstan er mikið eftirlit, minnir svolítið á eftirlitið milli austur-vestur blokkanna hér í denn.
Kasakstan er gríðarlega stórt land og ríkt. Olíu og gas eiga þeir í tonnum, og flytja út austur og vestur. Hér á landamærum er fjallasýn gríðar víð og fögur.
Thorunn Hreggvidsdottir
Friday, July 9, 2010
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment