... sagði við hinn kóreanska Speer "byggðu mér borg sem verður stærri og glæsilegri en nokkurn tíma hefur þekkast og mun standa um aldir alda sem minnisvarði um sósíalismann sem við ætlum að byggja hér í paradís verkamanna og bænda".
Speer tók sér í hönd penna og pappír og hófst strax handa. Hann teiknaði háhýsi og hallir, sigurboga sem er stærri en fyrirmyndin í París, glæsilegar breiðgötur og torg, metró sem líkist mest glæsileik Moskvu metrósins, tónlistahallir, leikhús, alþýðuhallir og bókasafn sem átti að verða stæsta bókasafn í heimi, stríðsminjasafn og keiluhallir, ólimpískar sundlaugar, 10.000 manna hallir undir tækvondó, box, handbolta, fótbolta. Hann setti samviskusamlega niður styttur af leiðtoganum mikla og afreksíþróttamönnum, leiðtoganum mikla og gosbrunnum, leiðtoganum mikla og tjah leiðtoganum mikla. Glæsilegar bryr yfir ána Taedong tengja austur og vestur Pyongyang. Borgin er mjög græn, tré,runnar,blóm, og tilheyrandi fuglasöngur. Allur gróður er snyrtur af sósialískum aga, ekki runni í borginni sem er ekki skúlptureraður.
Við vorum sótt á flugvöllinn af leiðsögumönnum okkar Kim og Lí, þau viku ekki frá okkur eitt augnablik og fyrsta daginn fengum við jafnvel fylgd á klósettið. Okkur var ekið í hreinni og nýlegri smárútu að 30 hæða hóteli og tékkuð inn á 10 hæð. Við vorum ALEIN á þessu stóra og frekar glæsilega hóteli, sem mátti þó muna fífil sinn fegurri. Grímúlfur hafandi nýlega horft á hryllingsmyndina Shining hljóp um gangana hrópandi redrum! redrum!. Þegar við vorum búin að þvo af okkur ferðarykið var okkur vísað í veitingasalinn, þar voru 70 borð en aðeins búið að leggja á borð á einu þeirra, fyrir okkur altså. Þar var borinn í okkur matur sem var bæði góður og smekklega fram reiddur en allt of mikið. Þannig var það á undantekningalaust hvar sem við borðuðum, of mikið af öllu. Ekkert nýtt á matseðlinum svosem, kjöt, fiskur, hundur,núðlur heitar og kaldar og að sjálfsögðu kimchi, mikið af grænmeti en ávextir voru af skornum skammti.
Og svo hófst sýningin, Það vildi svo vel til að daginn sem við komum bar uppá mikinn hátíðisdag í landinu, þann dag hóf leiðtoginn háskólanám sitt og urðum við því vitni af hópdönsum háskólanema um alla borg. Svo vorum við leidd um hvert minnismerkið á fætur öðru og í raun mjög stíft prógramm. Við náðum enn einum smyrlingi í safnið og höfum nú séð þá alla, Lenin, Mao, Hó og nú Kim, Kristín sagði okkur að vísu í gærkveldi að Gengis Kahn væri smurður í Mongólíu, það verður að athuga það nánar.
Við vissum svosem nokkurnvegin að hverju við gengum og gerðum bara það sem okkur var sagt, eitt sinn ætlaði Rútur að kíkja inn í matvöruverslun en var samstundis stoppaður, " goverment policy"!!
Upplifunin af Pyongyang er fyrst og fremst að hún er mónumentalisk,skipulögð glæsiborg sem er tandur hrein, jafnvel Singapor fölnar aðeins. Það eru engvir einkabílar á götunum svo hún er lítt menguð og hljóðlát, fyrirmenn í flokknum aka hinsvegar um á svörtum landkrúserum eins og útrásarglæpahyskið okkar heima á Íslandi. Heimamenn eru snyrtilega klæddir, karlar í hefðbundnum svörtum buxum og hvítri skyrtu, konur í skrautlegum blússum og pilsum. Enginn munur á klæðaburða kynslóða. Öll börn í skóla/ungliða búning. Ekki sáum við horaða manneskju en offita kemur sennilega seint til með að sliga heilbrigðiskerfið.
Ekki sáum við neinstaðar....og ég hékk út um glugga rútunnar til að leita...útigangsmenn, betlara, fatlaða,drykkjumenn, eða aðra sem falla á jaðar mannlega samfélags.
Hinsvegar ber að geta þess að viðhaldi húsa var ábótavant og oftar en ekki höfðum við á tilfinningunni að glæsihallirnar og söfnin væru tóm. Hið 100000 m2 bókasafn borgarinnar var það fátæklegasta sem ég hef séð og var okkur þó aðeins sýnd sér valin herbergi eins og herbergi erlendra bóka. Þar voru til sýnis uþb. 50 bækur.
Leiðsögu menn okkar svöruðu spurningum okkar til að byrja með eins og eftir uppskrift. Öll svör hófust á :"Leiðtoginn mikli sagði að........." Eftir því sem á leið þá urðu þau aðeins afslappaðri gagnvart okkur enda við komin til að skoða og læra, aðrir geta dundað sér við að krítisera.
Samkvæmt uppskriftinni þá sér ríkið þegnunum fyrir öllu sem þarf, menntun, heilbrigðisþjónustu, afþreygingu, tónlistar/leiklistar/íþróttar/listar almennt eftir því sem hugur hvers og eins stendur til. Húsnæði er frítt og fá nýgift hjón 60m2 í búð, en einstalingur býr hjá foreldrum fram að giftingu. Kynlíf fyrir hjónaband er, kanske ekki stranglega bannað en getnaðarvarnir liggja ekki á lausu og barn sem fæðist utan hjónabands lendir á uppeldisstofnun. Það var hinsvegar alveg deginum ljósara að við fengjum ekki að skoða heimili fólks, sjúkrahús né almennt nokkuð utan prógramms.
Það er intranet í N-Kóreu, þeas nettenging sem nær bara ekki út fyrir landsteinana, ein sjónvarpsstöð sem sýnir engar fréttir af umheiminum, aðallega stillimyndir af leiðtoganum. Sömuleiðis er innihald frétta í Pyongjang Times frekar rýrt. Ekki fengum við að versla neitt sjálf, gjaldmiðill heimamanna er ekki fyrir okkur, við borguðum fyrir allt með evrum/dollurum.
Við fengum almennt ekki að hitta heimamenn, hvað þá tala við þá.
Við sáum sirkus sem var stórkostleg skemmtan, apar og birnir á skautum, fimi loftfimleikamanna á við það sem við sáum hér í Peking, barnasýningu, þar sem börn sýndi listir sínar. Öguð frá unga aldri sýndu þau ótrúlegustu listir.
Þess verður eiginlega að geta að N-Kóreubúar læra aðra útgáfu af Kóreustríðinu en flest okkar sem læs eru, þær miljónir manna um heim allan sem ólæsir eru, þeim er sennilega nokk sama hver sigraði hvern.
Það sem eftir situr þegar heim er komið er að þetta samfélag er óraunverulegt, mér liggur við að segja ein stór lygi..... af því ég fékk ekki að sjá það sem ég vildi grunar mig sterklega að það sé ekki alveg allt með felldu, en mikið var þetta merkileg ferð og synir mínir sem muna auðvitað ekkert eftir Moskvu voru opinmynntir af undrun og furðu allan tímann. Þetta var eiginlega eins og að fara í Disneyland, og þó ekki því það eru til disneylönd um allan heim, það er bara til ein N-Kórea.
En nú heldur ferðin áfram,silkileiðina, við höfum hér í Bejing notið gestrisni Sendiherra Lýðveldissins Kristínar Árnadóttur og ekki í kot vísað á þeim bæ, mikið talað og hlegið og skipst á lífsreynslusögum.
Kveðja, Tóta
Friday, July 2, 2010
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
Very interesting read.
ReplyDeleteGamall Vinur
G. K. Gudmundsson fra Nesinu nu i Kanada
gudmk99@yahoo.ca