Monday, June 14, 2010

Vietnam, tékk.

Saigon er heimsborg, metrópól, breiðgötur, torg, gosbrunnar, styttur, trjágöng, glæsilegt ráðhús, óperuhús, hótel og víðfrægt pósthús. Sem betur fer hefur verndarhendi verið haldið yfir byggingum sem Frakkar reistu á seinni hluta 19. aldarinnar og setja þau mjög glæsilegan svip á borgina.
Þar ferðast menn um á vespum og sú breyting hefiur orðið á vespumenningu síðan við heimsóttum síðast að það er kominn skemmtileg hjálmatískubylgja. Ungt fólk og gamalt töffast áfram með smarta hjálma og eru engin takmörk fyrir frumlegheitum í litum, mynstrum og lögun.
Þar sem við höfum heimsótt Saigon nokkrum sinnum áður og "tekið túristaspakkann" ákváðum við nú að njóta borgarinnar á fallegum veröndum með limesafa og bók. Ég held að við hjónin höfum aldrei verið svona skelfilega afslöppuð á ferðalagi áður, hingaðtil hefur þurft nálægð jökulsins til að sofna í stól um hábjartan dag.
Nú Saigondvölinni lauk eins og öllu að lokum og við stukkum uppí lestina til Hanoi seint um kvöld, spiluðum rommy og létum svo vagga okkur í svefn. Ég vaknaði í dögun og fylgdist með dagrenningu í Vietnam. Klukkan var ekki nema 0500 en vinnan á ökrunum var hafin. Hér ólíkt í Kambodiu er nóg af vatni og iðagrænir akrar eins langt og augað eygði. Vatnabufflar, endur og fiðurfé, vatnaliljur og gjöful jörð. Gul fiðrildi fylgdu okkur alla leið norður.
Vietnam er gríðar fagurt, og landslag mun fjölbreyttara og myndrænna en það sem við sáum í Kambodíu, en það var svosem bara ein ferð og segir auðvitað ekki alla söguna.
Mikill friður ríkti þarna í morgunbirtunni og erfitt að ímynda sér hernaðarbröltið og hrylling þess fyrir 35 árum.
Húsakynni vöktu athygli mína, ekki á staurum eins og í Kambodiu, enda ekki von á flóði, heldur eins til tveggja hæða rétthyrnd hús, ca. 3x10m, pastellitar dyr og gluggarammar, einfalt, snyrtilegt og hentar loftslaginu, litlir og fáir gluggar en nóg til að hleypa golu í gegn.
Grafreitir hindúa voru áberandi til að byrja með svo tóku við skrautlegir búddatrúar grafreitir eftir því sem norðar dró fjölgaði hinsvegar grafreitum fallinna hermanna.
Við borðuðum mais, egg, brauð og hrísgrjón sem við keyptum á brautarpöllum þar sem lestin stoppaði. Ekki kærðum við okkur um matarvagninn því þar sat hópur fúllyndra lestarvarða sem drakk og reykti og voru einbeittir í því að vera óliðlegir. Við ákváðum að það væri sennilega ekki allt alveg í lagi heima hjá þeim, kanske konur lestarvarða legenderiskt ótrúar.
Þannig liðuðumst við upp allt landið, dormandi, spilandi, slúðrandi, lesandi og hlæjandi því það er gott að ferðast með lest. Þegar við komum til Hanoi var fyrsta verk að setja í þvott, hver og einn er nefnilega bara með þrjá umganga af fötum, 6kg nema Rútur hann ber 7 kg því hann geymir tölvuna. Þetta heitir að ferðast létt og erum við orðin ansi flink í því. Næst á dagskránni var Pho á standi hér beint á móti og svo var gefinn frjáls tími, hver og einn gerir nákvæmlega það sem hann vill, ekkert prógramm.
Við Rútur þræddum gamla hverfið enn og aftur, fundum litlu nýlenduvöruverslunina OG kavíarinn frá Rússki ( ætlum að bjóða strákunum uppá rússneskan kavíar í lestinni til Peking) og svo gengum við og gengum þangað til við gátum ekki meir. Nautn þess að ganga í fallegu umhverfi og hreinu er engu lík eftir að hafa verið svipt þeirri gleði í tæp þrjú ár. Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.
Hanoi er ákaflega sjarmerandi, alls ólík Saigon, arfleið Frakka er hér mikil og standa minnismerki menningar þeirra víða. Hér eru bestu háskólarnir og elstu og hér er greinilega mikið að gerast því á einu ári sjáum við merki uppbyggingar og framfara. 2011-2013 á að byggja nyjan flugvöll við Hanoi og á hann að verða sá stæsti og fullkomnasti í allri Asíu, það segir heilmikið um framtíðarsýn landsins. Strákunum finnast stelpurnar í Hanoi sætari en í Saigon, ég veit svosem ekki en brosmildir og kurteisir eru Vietnamar.....nema lestarverðirnir altså.
Nú Kína og stefnan tekin á son Sólarinnar

No comments:

Post a Comment

 
Free counter and web stats