KAMBODIA,TÉKK.
Siem Riep í Kambódíu er ævintýrastaður. Hæst ber eðlilega hið forna konungsdæmi Ankor Wat, hallir þess og musteri, lýsingar á þeim töfrastað eru hvergi ýktar. Við ráfuðum um þessa töfraborg sem hafði týnst í skóginum í heilan dag. Klifruðum upp allt sem við gátum klifrað, kíktum alls staðar unn undir og í kring. Stór gul græn og blá fiðriðdi flugu um í stórum breiðum og við áttum dásamlegan dag. Við sigldum á Tonle Sap og skoðuðum fljótandi þorp, löbbuðum um borgina og nutum gestrisni og þjónustulundar Khmeranna.
Frá Siem Riep til Phnom Pen höfðum við ætlað að sigla en vegna þurrka var það ekki gerlegt svo við leigðum okkur lítinn mínibus og bílstjóra til að skutla okkur. Það eru 320km á milli og falleg sveit. Hrísgrjóna akrar, nýplægðir með uxa, manni og plógi biðu regnsins, menn og konur stóðu upp að mitti í ám kastandi neti eins og gert hefur verið í þúsundir ára, lítil sem engin umferð bíla og mikill friður.
Það sem er þó eftirminnilegast af þessari ferð milli SR og PP voru hópar skólastúlkna í síðum dökkbláum pilsum, hvítum blússum með hvítan hatt, svart sítt hárið bundið saman í tagl hjólandi í skóla á gamaldags hollenskum hjólum. Dásamleg sýn sem átti eiginlega heima í franskri kvikmynd.
Phnom Penh sem einu sinni var kölluð perla Asíu er gríðarfalleg og ber fyrrum nýlenduveldi vel söguna. Þar eru franskar glæsivillur, mis vel viðhaldið milli asískra halla og mustera. Borgin er hrein og falleg, staðsetning við Mekong falleg. Þar sigldum við mikið, skoðuðum söfn og hittum frænku Rúts og strákanna, Ernu Eiríksdóttur sem býr þar og hefur dvalið langdvölum í SA Asiu.
Í morgun áður en fuglarnir vöknuðu stukkum við svo enn upp í bíl og komum um hádegi til Ho-chi-Minh borgar, eða Vespuborgarinnar sætu, Saigon eins og við köllum hana.
Keyptum lestarmiða frá Hanoi til Bejing, það tók svolítinn tíma því enginn talaði ensku á járnbrautarstöðinni en allt gekk það þó með gagnkvæmum vilja, fengum okkur GogT á þakinu á Majestic. Á morgun ný ævintýr.
Tuesday, June 8, 2010
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment